Ævintýrinu er lokið...

Þá er þessu Smartlands ævintýri því miður lokið en lokahnykkurinn var í dag þegar við skvísurnar mættum í myndatöku. Ég  er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og að hafa verið valin í þessa lífstílsbreytingu hjá Mörtu og Lilju. Þó að hlutirnir hafi kannski ekki gengið alveg jafn vel og ég vildi eða dreymdi um, þá mun ég halda ótrauð áfram.

Síðustu vikurnar hafa verið erfiðar þá bæði reykingarleysislega séð, matarlega séð og æfingalega séð. Ég hef verið reyklaus en ég er suma daga að taka ennþá einn dag í einu og því hefur gengið illa að halda matarræðinu í góðu lagi. Svo hjálpaði ekki til þegar ég náði mér í flensu með kinnholu sýkingu og ýmsum meðfylgjandi kvillum sem varð til þess að ég komst ekki á æfingar. En svona er bara lífið það koma upp og niðursveiflur og í niðursveiflunum verður maður að passa að rakka sig ekki niður í svaðið, svo maður geti staðið upp aftur og haldið áfram á réttri braut.

Við skvísurnar fórum í yfirhalningu hjá henni Hrafnhildi og skvísunum hennar á hárgreiðslustofunni Greiðunni um daginn og var það alveg frábært. Ég kom út með nýtt hár en hún Vigdís snillingur litaði mig og Hrafhhildur sá um klippinguna. Einnig var okkur boðið í spa hjá Sóley natura og var það dásamlegt. Æðislegt að geta slakað á og kjaftað í rólegu og þæginlegu umhverfi. 

Í dag var svo loka hittingurinn þar sem við fórum í myndatöku, það verður auðvitað að sýna fyrir og eftir myndir. Ég byrjaði á því að mæta í blástur á Greiðuna til þess að hárið yrði nú í lagi. Svo sá hún María Mist dóttir mín um að farða mig, þar sem kellan er ekki alveg sú besta í þeim málum. Ég vona bara að myndirnir verði ágætar þrátt fyrir myndatökufælni mína.

Ég er staðráðin í því að halda ótrauð áfram og er planið að mæta í boot camp og svo einu sinni í viku til Lilju til þess að halda í góða stuðninginn hennar. Einnig langar mig að prófa að taka sykurinn út í janúar og mun nýta mér hana Eyju varðandi það, enda skvísan með eindæmum dugleg.

Að lokum vil ég segja að ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast æfingaskvísunum, Lilju þjálfara sem er algjört hörkutól og Mörtu Maríu sem er algjör gullmoli. Þetta eru konur sem gefa lífinu lit.

Mottó ársins 2017 verður GÆS= get, ætla, skal.

Takk fyrir mig.


Dekur og dúllerí

Jæja þá fer þessu smartlandsfjöri senn að ljúka (skrifa þetta með grátstafinn í kverkunum) en lífið heldur áfram sem og lífstílsbreytingin. Síðan ég hætti að nota kveikjarann hefur sumt orðið erfiðara og þá hafa síðustu tvær vikur verið hvað verstar. Nart og nammiþörfin hefur verið að gleypa mig og þá koma hugsanir á borð við, hvað þetta er allt í lagi það er mun betra að fá sér smá nammi heldur en sígó. Sem er svo sem alveg rétt en kannski ekki þegar maður er að reyna taka sig á í matarræðinu. Svo hjálpar heldur ekki þegar pestadrulla hellist yfir mann sem verður til þess að æfingar detta út. Þannig að staðan er sú að mig drullukvíður fyrir síðustu mælingunni sem verður næsta þriðjudag.

En að öðru en leiðindum, við skvísurnar vorum svo ótrúlega heppnar að vera boðnar í litlun, plokk og þvílíkt dekur hjá henni Maríu á snyrtistofunni Mizu sem er staðsett í Nóatúni. Ég sem sagt fór í gær eftir vinnu og þvílíkt dúllerí og dekur, hún María kom fram við mig eins og prinsessu og dekraði við mig í langan tíma. Ég fór frá henni með annað andlit, nýjar augabrúnir og augnhár. Dásamleg kona með húmorinn og nærveruna í lagi. Ég fór nú ekki heldur auðum höndum út því hún færði mér þennan svaka fína poka með appelsínuhúðkremi og skrúbbi, andlitskremum og handáburði. Vá hvað þetta var geggjað og bara takk æðislega fyrir mig. Ég mun sko pottþétt fara til hennar aftur, svona hluti verður maður bara að leyfa sér annað slagið.

Þangað til næst...

 


Bara þrjár vikur eftir...

Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér síðustu daga hvað í ósköpunum ég eigi eiginlega að blogga um, ég er lítill bloggari í mér og hef aldrei átt auðvelt með að tjá mig um hluti sem tengjast sjálfri mér.

Þegar ég byrjaði í lífsstílsbreytingu Smartlands var ég viss um að þetta yrði allt svo auðvelt, nú væri bara komið að mér að finna frelsið. En svo er þetta bara svo langt frá því að vera eitthvað auðvelt, það er margt sem ég þarf að læra eins og að breyta hugsunum, borða hollt og svo að koma ræktinni inn í dagsrútínuna. Ég tel mig reyndar vera komin á þennan stað að langa virkilega til að fara í ræktina og finn fyrir þeirri góðu líðan sem kemur upp eftir hverja æfingu og er það stórt skref upp á við.

Matarræðið hefur hins vegar gengið upp og ofan, ég sagði það svo sem í byrjun að missa kíló væri auðvitað bara plús. Það sem ég vildi fá út úr þessi væri að tileinka mér að fara í ræktina nokkrum sinnum í viku og læra að umgangast mat á eðlilegan máta. Já og svo má auðvitað ekki gleyma að hætta pepsi max drykkju, minnka nammiát og hætta öðrum gömlum ósið sem ég hef lengi átt erfitt með að losa mig við.

Ég ætlaði mér aldrei að hætta í sykri, hætta í hveiti og hætta í hinu og þessu, nema þá kannski lituðum gosdrykkjum. Heldur var planið að koma inn hollari fæðutegundum og fá sér kannski bara nammi einu sinni í viku. Ég vil geta fengið mér einn tvo mola án þess að fá samviskubit en ekki að gúffa í mig allri skálinni.

Eins og ég sagði þá hefur þetta gengið upp og ofan, ég reyni að vera meðvitaðri um hvað ég set ofan í mig og tek ekki með mér súkkulaðistykki heim eftir hverja verslunarferð. En svo koma bara erfiðari dagar inn á milli, erfiðleikar á börnunum, svefnlitlar nætur og veikindi og þá er oft svo auðvelt að velja bara eitthvað gums. Þrátt fyrir að vita hversu miklu betur það fer í líkamann að fá sér eitthvað hollt, sérstaklega þegar ástandið á manni er ekki hundrað prósent, þá er bara gumsið auðveldara val.

En lífsstílsbreyting er ekki breyting sem einstaklingur gerir í 12 vikur, heldur til frambúðar. Og þannig horfi ég á það, ég hef verið að taka hænuskref frá því í september í átt að heilsusamlegra lífi. Stundum hafa skrefin orðin mörg áfram og stundum hefur hænan tekið nokkur skref aftur á bak. En það er líka akkúrat málið það er ekki hægt að breyta öllu einn, tveir og þrír það verður að gerast hægt og rólega. Það er allavega mín upplifun og eitthvað sem ég tel að muni virka fyrir mig, eflaust virka aðrar aðferðir fyrir aðra sem er bara gott mál. Þetta er líka alltaf spurning um að láta hausinn fylgja með og hafa stjórn á hugsunum sínum.

Þó að ég komi ekki til með að klára þetta námskeið tíu kílóum léttari og mörgum sentímetrum minni, þá mun ég klára þetta námskeið uppfull af góðum lærdómi og farmiða aðra leiðina til betralífstílsland. Vegferð mín mun klárlega ekki enda við tólf vikurnar, ég mun halda áfram á þessari braut og hef trú á því að ég verði orðin ofur hraust, stælt og sexý áður en langt um líður. Ég er samt alveg ofur sexý núna, langar bara að verða hraust og stælt líka.


Bazaar Oddsson

Á þriðjudaginn síðastliðinn vorum við skvísurnar svo heppnar að vera boðnar út að borða á Bazaar Oddsson. Þar áttum við skemmtilegt kvöld með gömlu lífstílsgellunum, Mörtu og Lilju. Gestgjafarnir á Bazaar Oddsson dekruðu við okkur með hinum ýmsu réttum, sem allir voru frábærir. Það var mikið hlegið og við nýju skvísurnar fengum góð ráð og pepp frá þeim gömlu.

Tíminn hefur hins vegar flogið áfram og aðeins fjórar vikur eftir af þessu verkefni en þá tekur við nýtt verkefni en það er að halda áfram. Þetta hefur gengið ágætlega og tek ég þetta bara svolítið á mínum hraða og með mínum markmiðum, engar öfgar er eitthvað sem hentar fyrir mig. 

Um helgina er ég að spá í að prufa hotjoga og síðan ætla ég að slaka á með fjölskyldunni, ef það er hægt að kalla það slökun.

 


Það koma holur...

Að breyta lífsstílnum er langt frá því að vera auðvelt, það koma holur sem maður dettur ofan í en þegar það gerist verður maður bara að koma sér upp úr þeim aftur. Síðustu dagar hafa verið svolítið þannig og þá sérstaklega helgarnar. Það krefst skipulags að breyta lífstílnum og á virkum dögum gengur það fínt enda er rútína þá. Helgarnar hins vegar geta sett allt úr skorðum, þá er ekki vinna eða tími með stelpunum í ræktinni. Það er því nauðsynlegt að skipuleggja helgarnar vel varðandi mat og hreyfingu svo að allir dagar vikunnar séu góðir.

En þetta er samt ekki spretthlaup heldur langhlaup og tekur allt tíma. Ég er ekki að þessu til þess að losna við fullt af kílóum á stuttum tíma, alls ekki. Heldur til þess að læra á nýjar venjur og tileinka mér lífsstíl sem mun gefa mér meiri orku og betri líðan.

Við fengum aftur að hitta Anítu Sig á miðvikudagskvöldið, það var alveg dásamlegt og kom hún alveg á réttum tíma. Hún er svo fær í að efla mann og peppa mann upp í að halda áfram á þessum vegi sem liggur til betri lífsstíls.

Annars er komin helgi svo það er spurning um að fara skipuleggja mat og hreyfingu svo að holurnar verði ekki á vegi mínum um helgina. 


Hvað skal borða?

Ég á við stórt vandamál að etja sem hefur fylgt mér frá æsku en það er matvendni. Ég er alveg svakalega mikill gikkur og hef því alla tíð borðað mjög einhæft fæði. Þetta vandamál á ekkert mjög mikla samleið með breyttum lífsstíl. Eftir kjúklingasallat nokkra daga í röð er ég komin með æluna upp í háls og fisk læt ég bara helst ekki inn fyrir mínar varir. Þetta finnst mér alltaf vera svona helstu fæðutegundirnar sem fólk borðar þegar það er að reyna taka sig á, fiskur, kjúklingur, fiskur, kjúklingur úff ég fæ bara hroll.

Ég ákvað því um daginn þegar mér fannst ég vera búin að fá mér of oft próteinsheik og langaði í mat að fara og fá mér eina "holla" pizzu, já ég viðurkenni það að ég elska pizzur og hef alltaf gert. En allavega þá skellti ég mér á eina Saffran böku og borðaði hálfa í hádegismat með auðvitað grænmeti ofan á og mínus endarnir og svo rest í kvöldmat. Já nei nei hún Lilja var nú ekki sátt með þetta og sagði þetta vera svona sparimatur, sem sagt svona nammidags matur. Ha!! ekki fyrir mér, þetta var sko holl pizza ef ég ætlaði að fá mér nammimats pizzu þá yrði það ein eldbökuð með pepp og svepp en ekki Saffran baka með káli ofan á. En maður lærir víst alltaf eitthvað nýtt og í þessu tilfelli var það að holla pizzan mín er kannski ekkert svo holl.

Vandamálið þessa dagana er því að reyna finna eitthvað hollt að borða sem ég get borðað. Nammi og pepsimax leysið það er eitthvað sem hefur gengið vel og finn ég ekki fyrir miklum söknuði þó ég hafi fengið mér þetta á hverjum degi í mörg ár. 

Ræktin er bara æði með Lilju og stelpunum og það er alltaf gaman að mæta þrátt fyrir harðsperrur og þreytu. Í næstu viku er svo mæling hólý mólý, ég ætla hins vegar að reyna að missa ekkert svefn yfir henni og halda áfram á mínum hraða.

Góða helgi


"Það gerist ekkert"

Hver kannast ekki við þessi fleygu orð "það gerist ekkert" eftir að vera búin að borða hollt og taka á því í ræktinni í nokkra daga. Ég kannast allavega vel við þau enda hafa þau oft fengið mig til að gefast upp. Ég veit ekki hvað er málið en ég er þannig að ég vil helst að allt gerist einn, tveir og þrír og helst í gær. Þessi hugsun skaust upp í hausinn á mér á föstudaginn, það er bara ekkert að gerast Jóhanna og þú búin að vera alveg í ræktinni í tæpar tvær vikur. 

Ég komst hins vegar líka að því á föstudaginn að það er margt að gerast. Ég er farin að finna að með því að mæta í ræktina þá líður mér betur andlega, ég er hressari, hef meiri orku, meiri þolinmæði og innri líðan er frábær. Á föstudaginn fór ég ekki í ræktina og hreyfði mig ekkert sem varð til þess að ég var frekar langt niðri, fannst ekkert vera ganga og hvað þá að eitthvað væri að gerast í þessum nýja lífstíl.

Mikið svakalega var gaman að átta sig loksins á því hvað hreyfing og hollara matarræði hefur góð áhrif á mig og verður gott pepp inn í áframhaldandi vikur. Að breyta lífi sínu til frambúaðar tekur tíma, það gerist ekkert einn, tveir og þrír...

 


Litli púkinn á öxlinni

Hver kannast ekki við litla púkann á öxlinni? Þessi sem reynir alltaf að fá þig til að gera allt þveröfugt við það sem þú ætlar þér eða langar til að gera. Hann hefur verið að trufla mig þessa dagana. Jóhanna iss fáðu þér smá nammi það gerir ekkert til, þú ert svo þreytt taktu þér frí í ræktinni. Hver bauð honum eiginlega í heimsókn ég bara spyr? Ég hef ákveðið að jarða hann og reyni því að hlusta ekki á hvað hann er að bulla í mér.

Matarræðið hefur verið þokkalegt og fullt sem maður lærir þegar matardagbókin kemur til baka frá Lilju. Allt tekur þetta tíma, bæði að tileinka sér hollari valkosti og að muna eftir að borða. Ég hef átt það svolítið til gleyma að borða og þegar hungrið er orðið það mikið er svo auðvelt að ná sér í snögga og óholla orku. En núna taka nýir tímar við þar sem heilsan verður sko sett í fyrsta sæti.

Ég verð að viðurkenna að líkaminn hefur verið frekar slæmur síðustu daga, líður pínu eins og ég sé að verða lasin en ég veit að það er ekki málið. Að vera farin að hreyfa sig fjórum sinnum í viku frá því að gera ekki neitt er frekar stórt skref og því ekki nema von að líkaminn þurfi tíma til að venjast breytingunum. 

Ég mun halda áfram að gera mitt besta svo ég verði betri útgáfa af sjálfri mér og mun slást við púkann á öxlinni þegar þörf er á. Nú er það ég sem ræð en ekki hann...

 


Strengjakvartett og mælingar

Jæja þá eru tveir tímar búnir hjá Lilju í ræktinni og er ég alveg rosalega ánægð með það sem komið er. Bæði eru æfingarnar skemmtilegar og erfiðar, hópurinn alveg frábær og Lilja alveg mögnuð. Ég viðurkenni það að ég varð nú eitthvað vör við strengi í morgun þegar ég vaknaði en er það ekki bara gott, þá hef ég greinilega verið að taka eitthvað á. 

Matarræðið er strax farið að verða betra og reyni ég bara að taka einn dag í einu. Þetta er langhlaup en ekki spretthlaup. Pepsi Max, nammi og almenn óhollusta hafa verið mínir veikleikar og því á miklu sem verður að taka varðandi breytingar til hins betra. En ég er tibúin í þetta verkefni og hlakka til að læra borða hollt og rétt.

Í dag mættum við skvísurnar í mælingar, myndatöku og smá viðtal. Að láta mynda sig við mælingar á líkama sínum er nú ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi, en ef þetta er það sem þarf til þess að ég fari að huga betur að lífstílnum mínum þá er mér alveg sama.

Helgin verður svo notuð til þess að fara í göngutúra og slaka á og gíra sig upp fyrir næstu viku, ég bíð spennt eftir að mæta til Lilju eftir helgarfrí.


Nýr lífstíll - hér kem ég

Ég fékk símtal um daginn frá henni Mörtu Maríu þar sem hún bauð mér að taka þátt í lífstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins með henni Lilju einkaþjálfara. Vá hvað ég varð hissa, spennt og hrædd en á sama tíma alveg afskaplega þakklát. Það er nú ekki á hverjum degi sem maður ákveður að stökkva svona út í djúpu laugina. Ég er samt svakalega spennt að takast á við þessa áskorun og verða samferða þremur öðrum ofurkonum í þessari breytingu.

Í dag var svo fyrsti tíminn í púlinu hjá henni Lilju, úff ég hélt ég myndi deyja, formið greinilega ekki upp á sitt besta. En mikið rosalega hlakkar mig samt til að mæta aftur á morgun og hitta nýju bestu vinkonur mínar og taka ofur æfingu með Lilju snillingi.

Aníta Sig endaði svo kvöldið með frábærum fyrirlestri varðandi hausinn á okkur, hugsanir og hegðun. Hún var alveg frábær og allt svo ótrúlega satt og rétt sem hún var að segja. Svo nú er bara að girða sig í brók og hefja þetta frábæra ferðalag....þangað til næst.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband